Sagan
Fiskkaup hf. keyptu Fish & chips vagninn vorið 2016 og reka hann í Vesturbugt, vestan Slippsins við Reykjavíkurhöfn.
Fiskkaup eru fjölskyldufyrirtæki í fjóra ættliði. Það gerir út tvo báta, Kristrúnu RE-177 og Jón
Ásbjörnsson RE-777, og rekur öfluga fiskvinnslu í nýlegu, sérhönnuðu húsi að Fiskislóð 34.
Að Fiskkaupum og rekstri Fish & chips vagnsins standa Ásbjörn og Ásdís Jónsbörn Ásbjörnssonar og makar þeirra, Hildigunnur Gunnarsdóttir og Árni Rudolf Rudolfsson.
Fiskkaup hafa allt sem þarf til að reka vagninn að öllu leyti á eigin vegum. Fyrirtækið veiðir fiskinn, verkar hann, steikir og selur beint til neytenda. Fiskverkunarhús þess er á Grandagarði, skammt frá vagninum.
Oft kemur fyrir að landað er þorski úr skipum Fiskkaupa að kvöldi og hann er seldur í vagninum daginn eftir. Ferskara getur hráefni ekki orðið!
Meðmæli kaupenda og sendiherrans líka!
Fyrri eigendur vagnsins létu sérsmíða hann í Bretlandi og ráku í Vesturbugt sumarið 2015. Þetta voru þrír félagar sem allir störfuðu á sama tíma við að markaðssetja og selja íslenskan fisk í Hull ásamt fjölskyldum sínum: Benedikt Sveinsson, Höskuldur Ásgeirsson og Pétur Björnsson. Benedikt var forstjóri og Höskuldur framkvæmdastjóri Iceland Seafood en Pétur rak eigið fisksölufyrirtæki, Ísberg. Þá dreymdi um að geta fengið fish & chips í hæsta gæðaflokki á Íslandi og ákváðu loks sjálfir að láta drauminn rætast fyrst aðrir sýndu því ekki áhuga!
Strax kom í ljós að Íslendingar kunnu vel að meta íslenskan fisk og franskar kartöflur matreiddar í samræmi við bestu hefðir Breta, að ekki sé nú talað um breska ferðamenn og reyndar fjölmarga aðra, erlenda gesti Íslendinga.
Meira að segja fulltrúi hennar hátignar, Elísabetar II. Englandsdrottningar, gaf matnum úr vagninum bestu meðmæli. Stuart Gill, þáverandi sendiherra Breta á Íslandi, kom og fékk sér fish & chips. Hann kvaðst koma aftur síðar. Það sagði allt sem segja þurfti.
Fisksala á heimavelli eigendanna
Vesturbugt við Reykjavíkurhöfn er heimaslóð núverandi eigenda Fish & chips vagnsins í bókstaflegum skilningi. Vagninn stendur nefnilega örskotslengd frá húsi við Nýlendugötu sem Ásbjörn Jónsson elsti byggði 1936. Þar ólst Ásbjörn Jónsson, núverandi framkvæmdastjóri Fiskkaupa og afabarn Ásbjörns elsta upp og þar hófu Ásdís systir hans og Árni Rudolf búskap!
Vesturbugt var leiksvæði Ásbjörns og hann stóð með afa sínum og nafna þar skammt frá og seldi Reykvíkingum nýveiddan rauðmaga úr kerru að vorlagi.
Athafnasvæði Fiskkaupa-fjölskyldunnar hefur þannig verið á sama svæðinu við Reykjavíkurhöfn í 60 á við að verka og selja ferskan og saltaðan fisk á heimamarkaði og til útlanda. Það er hins vegar ekki fyrr en með rekstri Fish & chips vagnsins að fjölskyldan fer alla leið og matbýr fiskinn sinn til sölu beint til neytenda.
Grásleppuverkun og útflutningur grásleppuhrogna var reyndar upphafið að Fiskkaupum, í tíð Ásbjörns elsta, og enn þann dag í dag er fjölskyldufyrirtækið umsvifamikið í viðskiptum með grásleppuhrogn.